Fréttir af þróunarverkefninu - Snemmtæk íhlutun í 1. bekk

Nú er þriðja árið þar sem unnið er í fyrsta bekk samkvæmt þróunarverkefninu. Fyrsta árið unnu Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur og Kristín Laufey Reynsidóttir, deildarstjóri stoðþjónustu að innleiðingu á þróunarverkefninu. Síðan hafa bæst fleiri tengiliðir í hópinn. Þeir eru: Kristín Guðadóttir, sérkennari, Hrönn Harðardóttir, umsjónarkennari, Svava Dögg Gunnarsdóttir, umsjónarkennari, sem eru allar kennarar við Skarðshlíðarskóla. Til viðbótar í verkefnastjórn er Bjartey Sigurðardóttir, talmeinafræðingur frá Mennta og lýðheilsusviði.

Markmiðið með verkefninu er að skilgreina og meta þarfir allra barna í fyrsta og öðrum bekk grunnskóla hvað varðar málþroska og læsi. Lögð er áhersla á að vinna markvisst með viðeigandi málþætti og styrkja undirstöðuþætti fyrir lestur fyrir þau börn sem þess þurfa og stuðla þannig að því að öll börn sem byrja í Skarðshlíðarskóla nái hámarksárangri hvað varðar málþroska og læsi. Unnið er eftir sérstakri aðgerðaráætlun.

Byrjað var á því að heimsækja Brekkubæjarskóla á Akranesi, þar sem unnið hefur verið markvisst með uppbyggingu málörvunarhópa í nokkur ár. Kynning var á starfsemi skólans sem skólastjóri hafði umsjón með, ásamt því að Bergrós Ólafsdóttir, talmeinafræðingur og Laufey Skúladóttir, grunnskólakennari kynntu uppsetningu og starfsemi málörvunarhópanna. Talmeinafræðingur frá Mennta og lýðheilsusviði hélt tvo fræðslufundi fyrir allt starfsfólk Skarðshlíðarskóla ásamt því að funda reglulega með tengiliðum verkefnisins.

Í framhaldi valdi talmeinafræðingur málörvunarefni sem hentar fyrir börn sem þurfa stuðning hvað varðar mál og lestur. Málörvunarefnið er flokkað eftir sérstökum litakóðum sem standa fyrir mismunandi málþætti. Tengiliðir verkefnisins (Kristín Laufey Reynisdóttir og Kristín Guðnadóttir) fengu fræðslu um mismunandi málþætti og flokkuðu málörvunarefnið í kjölfarið. Einnig var skoðaður listi sem að hægt er að nota til þess að greina á milli barna með málþroskafrávik á eigin tungumáli og barna sem þurfa meira ílag í íslensku þ.e. að dveljast meira í íslensku málumhverfi og fá fleiri tækifæri til þess að tileinka sér tungumálið.

Farið var markvisst yfir bakgrunnsupplýsingar sem fylgja hverjum nemanda frá leikskóla, þar sem sérstaklega var skoðað hvernig nemendur komu út á HLJÓM-2 og öðrum prófum og athugunum sem meta málþroska og undirstöðuþætti fyrir lestur. Einnig voru skoðaðar tillögur leikskólakennara um áframhaldandi stuðning við börn sem að sýndu frávik hvað varðar mál og læsi í leikskóla. Auk þess var farið yfir gátlista sem fylgir Lesskimun, Lesferils fyrir 1.bekk (LtL) ásamt því að að skoða vel niðurstöður sem benda á frávik samkvæmt skimunarprófinu.

Tengiliðir í samráði við talmeinafræðing útbjuggu eyðublað fyrir kennara til að fylla út fyrir hvern nemanda sem að þarf frekari stuðning með úrræðum sem byggja á stigskiptri kennslu sem kennarar fylla út eftir að búið er að fara yfir bakgrunnsupplýsingar sem fylgja börnunum úr leikskóla og niðurstöður úr Lesskimun, Lesferils fyrir 1.bekk (LtL). Börn sem sýndu frávik samkvæmt skimunarprófinu fá kennslu við hæfi og áhersla er lögð á að velja málörvunarefni/kennsluefni sem hentar hverju barni samkvæmt stigskiptri kennslu.

Talmeinafræðingar prófuðu þau börn sem sýndu frávik í málþroska samkvæmt lesskimunarprófinu og funduðu með bekkjarkennurum, deildarstjóra stoðþjónustu og foreldrum til þess að fara yfir niðurstöður. Tengiliðir verkefnisins voru búnir að fá túlkun á niðurstöðum og fylltu út eyðublað með úrræðum fyrir hvern nemanda sem að sýndi frávik í málþroska. Þessi úrræði eru síðan notuð í stigskiptri kennslu með áherslu á að mæta þörfum hvers nemanda. Lögð er áhersla á að skrá niður hvað er gert í þessum kennslustundum.

Byrjað er að vinna drög að Handbók grunnskólans þar sem m.a. verður fjallað um tilurð þróunarverkefnisins, markmið, verkferla, samsetningu hópa, kennsluaðferðir og verkfærakistu hugmynda.

Næstu skref í þróunarverkefninu eru að talmeinafræðingar haldi fræðslufund fyrir starfsfólk frístundaheimilis og einnig er stefnt á að halda sérstakan fræðslufund fyrir foreldra. Talmeinafræðingar eru búnir að flokka spil sem henta vel til málörvunar og miðað er við að nota markvisst í frístund. Einnig koma þeir til með að velja fleiri spil sem henta vel til notkunar í frístund og hafa fengið leyfi frá stjórnendum skóla til að kaupa slík spil.

Tengiliðir þróunarverkefnisins ásamt talmeinafræðingum stefna á að ljúka verkefninu formlega í haust og vera þá komin drög að heildstæðri áætlun og verkferlar um snemmtæka íhlutun í Handbók Skarðshlíðarskóla. Stefnt er á að Skarðshlíðarskóli taki leiðandi hlutverk í innleiðingu á snemmtækri íhlutun í fyrsta bekk, þannig að aðrir grunnskólar í Hafnarfirði geti notið góðs af

2.mars 2020

Ásthildur Bj. Snorradóttir, talmeinafræðingur

Bjartey Sigurðardóttir, talmeinafræðingur

Kristín Laufey Reynisdóttir, deildarstjóri stoðþjónustu


Skarðshlíðarskóli | Hádegisskarð 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 527-7300 | Netfang: skardshlidarskoli@skardshlidarskoli.is