Stefna Skarðshlíðarskóla

Gildi Skarðshlíðarskóla eru leiðarljós skólastarfsins en þau eru samvinna, vinátta og þrautseigja. Tákn skólans er fiðrildi sem er myndað úr tveimur hjörtum. Merkingin á bak við fiðrildið er að lítil púpa breytist í fallegt og litríkt fiðrildi líkt og grunnskólagangan á að vera umbreytingarferli fyrir nemendur. Gildin og táknið eiga að endurspeglast í stefnu skólans og öllu hans starfi. Skólinn leggur áherslu á SMT skólafærni sem notuð er til að skapa jákvæðan skólabrag og tryggja velferð allra innan skólans. Lögð er áhersla á að styrkja jákvæða hegðun til að fyrirbyggja og draga úr óæskilegri hegðun.

Í Skarðshlíðarskóla er nemandinn í forgrunni í öllu starfi, við viljum útskrifa skapandi nemendur með gott sjálfstraust, sem eru sjálfstæðir, lausnarmiðaðir og tilbúnir að takast á við verkefni framtíðarinnar. Lýðræði er samofið öllu starfi og áhersla lögð á vináttu og vinsemd. Einnig er áhersla á góðan námsárangur, fjölbreytta kennsluhætti, lífsleikni og leiðtogafærni. Leitað er allra leiða til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda og að námsumhverfi sé hvetjandi og allir fái notið sín í leik og starfi.

Teymiskennsla kennara er ein af lykilstoðum í námi og kennslu nemenda þar sem hver árgangur er ein heild með tvo eða fleiri umsjónarkennara. Þetta byggir á náinni samvinnu og vináttu kennarateymis og árgangsins í heild. Þá viljum við stuðla að jákvæðri samvinnu og góðu upplýsingastreymi við forráðamenn nemenda því þeir eru mikilvægur hlekkur í námi barnanna.

Áhersla er lögð á hreyfingu, fjölbreytta kennsluhætti, sköpun og umhverfisvernd. Góð samvinna er við leikskólana í hverfinu og við tónlistarskólann sem er í sömu byggingu.

Í Skarðshlíðarskóla ríkir faglegur metnaður og leitast er eftir að skólinn sé eftirsóttur vinnustaður þar sem starfsmenn finna fyrir öryggi og vellíðan og fá tækifæri til að vaxa í starfi.


Uppfært ágúst 2021


Skarðshlíðarskóli | Hádegisskarð 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 527-7300 | Netfang: skardshlidarskoli@skardshlidarskoli.is