Netöryggi

Netöryggi og vefnotkun grunnskólabarna

Nemendum í grunnskólum er ætlað að kynnast upplýsingatækni í skólastarfinu. Það hefur í för með sér margskonar tölvutækjanotkun, vefnotkun og rafræn samskipti af ýmsu tagi. Í reynd felur þetta í sér tvær áskoranir, þ.e. annars vegar að færa nemendum nýja hæfni sem tengist notkun upplýsingatækninnar í víðtækum skilningi og hins vegar að draga sem mest úr þeim samfélagslegu hættum sem af þessari sömu notkun nemenda getur stafað, hvort heldur sem það stafar af nemendum sjálfum eða öðrum sem misnota upplýsingatæknina gagnvart nemendum, t.d. með ofbeldi og ógnunum.

Mikilvæg atriði varðandi notkun upplýsingatækni í skólastarfi grunnskólanna

  1. Ábyrgð skóla/bæjarins: Skólar leggja sig fram um að vera með sem mest öryggi varðandi tölvunotkun nemenda til að tryggja þeim persónulega vernd, viðhafa leynd upplýsinga (gagnvart óviðkomandi), koma í veg fyrir aðgengi óprúttinna aðila að nemendum (t.d. í gegnum samskiptamiðla, vefnotkun, tölvupóst o.þ.h.) og fleira. Þannig er bærinn með takmarkanir í tölvukerfi skólanna, t.d. vefsíur sem ætlað er að sía frá ofbeldis- og kynferðisefni, sem eiga að draga úr hættu eða koma í veg fyrir að nemendur verði fyrir óæskilegu efni og áhrifum í gegnum upplýsingatæknina í skólastarfinu.
  1. Tölvureglur og samskiptahættir í upplýsingatækninni: Grunnskólar Hafnarfjarðar eru almennt með ákveðnar reglur um notkun nemenda á tækjum og búnaði skóla. Tilgangur þeirra er að vernda nemendur, koma sem mest í veg fyrir öryggisbrot og að kenna nemendum heppilega notkun tækja og tóla undir hatti upplýsingatækninnar. Hver skóli kynnir þessar reglur fyrir sínum nemendum og aðstandendum og þær aðgengilegar á vefjum skólanna.
  1. Áhættumat kennsluforrita: Hafnarfjarðarbær stendur fyrir áhættumati á kennsluforritum, sérstaklega þeim sem eru nýtt í spjaldtölvum (iPad) skólanna. Það er gert til að vera sem mest viss um að forrit séu ekki að sækja persónuleg gögn um nemendur og miðla þeim til óviðkomandi. Þetta getur leitt til þess að sum forrit eru ekki sett í tölvur skóla, iPad meðtalinn, ef þau eru ekki talin örugg eða þau hafa ekki verið áhættumetin.
  1. Öryggisbrot: Þegar misnotkun á sér stað í gegnum tölvukerfi bæjarins, hvort heldur í gegnum tölvur í skólanum eða iPad skóla í skólabyggingunni eða utan hennar (á heimilum t.d.), er hún skilgreind sem öryggisbrot. Öryggisbrot geta verið af ýmsu tagi, t.d. leki skóla á persónulegum upplýsingum, stuldur óprúttinna aðila á gögnum skóla eða misnotkun nemenda sjálfra á tölvutækninni sem bærinn hefur veitt þeim aðgang að. Ef og þegar upp kemst um öryggisbrot er brugðist við eftir eðli brots hverju sinni og er það hvers skóla að vinna slík mál, í samstarfi við þróunar- og tölvudeild Hafnarfjarðarbæjar eins og við á.
  1. Lán á iPad til nemenda: Nemendur í 5.-10. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar fá lánaðan persónu­legan iPad til afnota. Lánið er háð samþykki aðstandenda um lánið og notkunin er á ábyrgð notanda þótt allt sé gert til að tryggja sem mest öryggi í umgengni við tækin af hálfu bæjarins. Hver skóli er með eigin reglur um notin, t.d. hvenær nemendur mega fara með tækin heim. Öllum iPad tækjum, sem nemendur hafa fengið að láni, skal skila til skóla yfir sumarmánuðina til geymslu og yfirferðar, einnig hleðslutækjum.
  1. Ábyrgð foreldra/heimilis: Foreldrar bera ábyrgð á hegðun barna sinna, líka þeim sem snúa að upplýsingatækninni í skólastarfinu. Mikilvægt er að foreldrar líti á sig sem fyrirmynd og fordæmi gagnvart börnum sínum um heppilega tölvunotkun og taka á misnotkun barna sinna. Öryggi varðandi notkun tækja á heimilum, m.a. iPad sem skólar lána nemendum, er háð öryggisatriðum sem heimilin sjálf stjórna en ekki skólinn.
  1. Ábyrgð nemanda: Sérhver nemandi hefur alltaf fulla ábyrgð á eigin tölvunotkun, hvort heldur í tækjum í skóla eða á heimilum með tækjum skóla (iPad). Í skólastarfinu er áherslan á að kenna nemendum sem besta og heppilegasta notkun og beitingu upplýsingatækninnar en nemendur þurfa samt að taka ábyrgð á eigin tölvunotkun, í samstarfi við foreldra.




Skarðshlíðarskóli | Hádegisskarð 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 527-7300 | Netfang: skardshlidarskoli@skardshlidarskoli.is