Hvernig eflum við sumarlestur meðal nemenda okkar?

Hvernig eflum við sumarlestur meðal nemenda okkar?

Við sem höfum sinnt kennslu í grunnskólum um árabil vitum að ef ekkert er lesið yfir sumartímann kemur lesfimi til með að hraka hjá mörgum nemendum. Hjá nemendum sem glíma við lestrarerfiðleika getur bakslagið jafnvel orðið það mikið að lesfimi að hausti (mælt í orðum á mínútu) stendur á sama stað og í byrjun þess sama árs. Það þýðir í raun að heil önn hefur tapast!

Ég hef verið að skoða handahófskennt frammistöðu nemenda í Hafnarfirði hvað varðar lesfimi og hvernig hún hefur þóast frá því farið var að nota nýju lesfimiprófin frá MMS. Þar kemur greinilega fram að milli mælinga í maí og september á sama ári fer all stórum hluta nemenda aftur. Þessi sjónræna framsetning á afturförinni (sem kennarar geta nálgast í Skólagáttinni) er sláandi og ég er ekki í vafa um að foreldrar sem skoða slík gögn varðandi eigin börn hljóta að vilja forðast að slíkt endurtaki sig. Myndin sem fylgir þessum pistli er skjáskot frá ónefndum nemanda í 5. bekk og er gott dæmi um slíka afturför.

Það er að sjálfsögðu undir hverjum og einum skóla komið hvernig hann vill hafa áhrif á sumarlestur nemenda sinna. Ein leið gæti verið að sýna foreldrum dæmi um slíkt framfararit og brýna fyrir þeim samlegðaráhrif þess ef ekkert er lesið í þrjá mánuði á ári í gegnum alla skólagönguna.

Til að koma í veg fyrir afturför í lestri yfir sumartímann er einfalt ráð: Að börnin lesi að jafnaði tvisvar til þrisvar í viku í ca. 15 mínútur í senn. Áherslur kennara hvað þetta varðar skipta miklu máli og hvernig þeir nesta sína nemendur inn í sumarið. Það má benda á fjölbreyttar leiðir hvað varðar sumarlestur: Lestrarbingó hafa verið vinsæl meðal yngri nemenda (sjá mms.is) og mætti þá t.d. búa til slíkt bingó með bekknum að vori þar sem allir nemendur geta komið fram með sínar hugmyndir. Í sumum skólum hafa verið settar af stað lestrarkeppnir milli bekkja til að ýta undir sumarlestur. Með eldri nemendur mætti hvetja þá til að lesa efni af vefmiðlum, t.d. umfjöllun sem snýr að áhugasviði þeirra eða fréttir af ýmsum toga. Einnig má benda á rafbækur. Skilvirkast væri ef eftir lestur ættu nemendur að segja foreldrum/forráðmönnum frá efni þess sem lesið var. Þá má nefna að Bókasafn Hafnarfjarðar verður með sitt árlega sumarlestrarátak og verður það kynnt fljótlega fyrir skólunum.

Af ofansögðu má sjá það getur skipt miklu fyrir nemendur að þeir viðhaldi lestrarfærni sinni yfir sumartímann en þannig er hægt að koma í veg fyrir afturför í lesfimi. Þeim tíma sem kennari ver í að undirbúa sumarlestur með því að höfða til foreldra er því vel varið.

 

Bjartey Sigurðardóttir, verkefnisstjóri Lestur er lífsins leikur



Skarðshlíðarskóli | Hádegisskarð 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 527-7300 | Netfang: skardshlidarskoli@skardshlidarskoli.is