Skólastarf í grunnskólum Hafnarfjarðar í upphafi nýs árs 2022

Hafnarfjarðarbær/mennta- og lýðheilsusvið óskar ykkur gleðilegs árs og þakkar fyrir samstarfið á árinu 2021. Árið reyndi á okkur í kórónaveirufaraldri og við lok árs virðast enn blasa við að frekari áskoranir. Sökum aðstæðna núna er nauðsynlegt að gera breytingar á grunnskólastarfinu í upphafi nýs árs.
Fyrsti skóladagur hvers skóla eftir jólafrí verður skipulagsdagur, óháð því hvort það hafði verið ráðgert í samþykktu skóladagatali hvers skóla. Hver skóli mun tilkynna nánar um upphaf skólastarfsins hjá sér til ykkar.

Skólastarf í upphafi nýs árs verður miðað við hefðbundið skólastarf og fulla stundaskrá nemenda. Vegna stöðunnar á kórónaveirufaraldrinum er samt líklegt að skólastarf muni enn frekar raskast á næstu vikum. Þannig verður að telja að skólarnir muni geta átt í meiri erfiðleikum en áður að manna alla kennslu sökum forfalla starfsmanna vegna veikinda, sóttkvía og smitgáta og aðgangur að forfallakennurum er takmarkaður og þeir forfallast líka. Kennsla í einstaka bekkjum getum riðlast frekar og skólar munu forgangsraða í forfallakennslu þannig að yngri nemendur gangi fyrir þeim eldri líkt og áður. Á hverjum tíma verður samt haldið uppi eins mikilli kennslu og hægt verður. Sóttvarnareglur á hverjum tíma ráða hér för í samspili við faraldurinn.

Í núverandi reglugerð um sóttvarnir, sem gildir til 12. janúar 2022, er kveðið á um hámarksfjölda nemendahópa saman í skólum upp á 50 nemendur. Undantekningar hafa verið einhverjar, eins og nemendafjöldi á göngum skóla, en nú var sú tilkynning að berast að undanþágan gildir ekki lengur um matsali skóla. Það felur í sér að skólarnir þurfa að loka matsölunum og sökum þess verður ekki hægt að afhenda nemendum hádegismat meðan reglugerðin er í gildi. Nemendur þurfa því að koma með hádegisnesti að heiman í skólann á meðan. En áfram verður boðið upp á hafragraut að morgni, morgunávexti og síðdegishressingu fyrir nemendur líkt og áður, eins og pantað hefur verið.

Það er búið að senda út greiðsluseðla til foreldra vegna matarþjónustunnar í janúar. Það er ljóst að þeir eru rangir vegna þess að nemendur munu ekki fá allan þann hádegismat sem áætlað hafði verið að afhenda þeim. Okkar ósk er að foreldrar greiði samt útsenda seðla, nemendur fái matinn síðar og lækkun komi á greiðsluseðli í febrúar sem því nemur. Óskað er biðlundar gagnvart þessu misræmi sem skapast núna því það mun verða leiðrétt.

Kórónaveirufaraldurinn reynir á okkur öll. Við þökkum ykkur þrautseigjuna fram að þessu og óskum þess að þolinmæði og góðvild ríki í öllum samskiptum í skólaumhverfinu og á heimilum á nýju ári. Það mun gera lífið léttara og auðveldar okkur að yfirstíga þá hjalla sem mögulega eru fram undan.

Skrifstofa mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar.


Skarðshlíðarskóli | Hádegisskarð 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 527-7300 | Netfang: skardshlidarskoli@skardshlidarskoli.is