Handbók í snemmtækri íhlutun í málörvun og lestrarnámi grunnskólabarna

Haustið 2017 byrjaði Skarðshlíðarskóli á þróunarverkefni um snemmtæka íhlutun í málörvun og lestrarnámi grunnskólabarna í samvinnu við Ásthildi Bj. Snorradóttur talmeinafræðing. Ásthildur var með ráðgjöf varðandi val á kaupum á málörvunarefni og verkefnum. Hún hélt fræðslufundi fyrir starfsfólk skólans og hélt utan um verkefnið með Kristínu Laufeyju Reynisdóttur deildarstjóra stoðþjónustu. Aðrir í teyminu eru Kristín G., sérkennari, Svava Dögg og Hrönn umsjónarkennarar í 1. bekk og Bjartey Sigurðardóttir talmeinafræðingur.

Nú haustið 2020 hefur afraksturinn litið dagsins ljós sem er handbók um snemmtæka íhlutun í málörvun og lestrarnámi.

Á fyrsta ári var málörvunarefni keypt, kennarar kynntu sér notkun þess og þjálfun hófst. Á öðru ári var allt málörvunarefni í eigu skólans flokkað eftir viðeigandi málþáttum en það auðveldar mikið notkun þess.

Markmið verkefnisins byggir á hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar. Hún felur í sér m.a. að skilgreina og meta þarfir allra barna í fyrsta og öðrum bekk varðandi málþroska. Niðurstöður matsins eru nýttar til að byggja upp stigskipta kennslu og til að velja verkefni við hæfi. Verkefnin eru valin með það í huga að styrkja þá málþætti sem barnið þarf að þjálfa.

Í upphafi skólaárs er nemendum raðað í málörvunarhópa eftir niðurstöðum gagna frá leikskólum og gátlista sem fylgir Lesskimunarprófi Lesferils fyrir fyrsta bekk. Það eru kennarar í fyrsta bekk og sérkennari sem fara yfir gögnin.

Unnið er markvisst með viðeigandi málþætti og undirstöðuþætti læsis hjá þeim börnum sem það þurfa. Þetta er framkvæmt með því að beita aðferðafræði stigskiptrar kennslu sem er öflugt kennslufyrirkomulag til að vinna að snemmtækri íhlutun. Á þennan hátt er stuðlað að því að öll börn sem byrja í skólanum nái hámarksárangri hvað varðar málþroska og læsi.

Við þökkum Ásthildi og Bjartey talmeinafræðingum kærlega fyrir þeirra framlag og hvatningu.

Hér fyrir neðan eru myndir af teymi skólans.






Skarðshlíðarskóli | Hádegisskarð 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 527-7300 | Netfang: skardshlidarskoli@skardshlidarskoli.is