Mílan

Consectetur adipiscing elit

Vorið 2018 var tekin ákvörðun á starfsmannafundi um að taka upp Míluna í Skarðshlíðarskóla. Frumkvæði að verkefninu er komin frá starfsfólki. Verkefnið var kynnt fyrir nemendum um haustið og fyrsta Mílan var farin 20. september 2018. Mílan er verkefnið að skoskri fyrirmynd sem heitir The Daily Mile. Um 5000 skólar víðs vegar um heiminn eru þátttakendur í verkefninu en Skarðshlíðarskóli er fyrsti íslenski skólinn sem tekur þátt. Daglega fara allir nemendur út í 15 mínútur og ganga, skokka eða hlaupa. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikinn ávinninginn fyrir alla með þessari einföldu leið. Má þar nefna betri líðan, aukið sjálfstraust, betri einbeiting, betri samskipti, minni streita og kvíði og aukin þrautseigja. Auk þess er þetta öflug leið til að bregðast við offitu og kyrrsetu.

Reynslan hefur sýnt að margir fara um eina mílu (1.6 km) á 15 mínútum og þess vegna heitir þetta The Daily Mile en við höfum ákveðið að nota nafnið Mílan. Það góða við þetta verkefni er að það kostar ekkert og allir geta tekið þátt. Það er engin þörf á að hita upp eða vera í sérstökum fatnaði, hver og einn fer eins og hann er klæddur þann daginn. Gert er ráð fyrir tíma í verkefnið í viðmiðunarstundaskrá, þar er tekinn tími af vali og einu sinni í viku fara allir nemendur skólans saman í frímínútum.

Það er til mikils að vinna og við erum ánægð með árangurinn. Starfsfólk talar um hversu vel þeim líður eftir að hafa farið út með nemendum, þeim finnst nemendur hafa betra úthald til náms og þeir sjá mikinn mun á úthaldi og hraða nemenda í Mílunni síðan í haust. Þetta er ekki keppni, bara félagsskapur og gleði, allir fara á sínum forsendum. Kennarar upplifa að þarna gefist þeim tækifæri á að kynnast nemendum á annan hátt og oft sé rætt um önnur málefni en í kennslustofunni. Nemendur eru líka ánægðir með Míluna.

Mílan hefur  vakið heilmikla athygli, bæði hjá skólafólki og almenningi og við erum ótrúlega stolt af þessu verkefni. Starfsfólk og nemendur hafa sýnt mikla samvinnu og þrautseigju og hafa farið út nánast undantekningarlaust í öllu veðri. Það er ekki sjálfgefið að svona verkefni dafni, en með öflugu starfsfólki og frábærum nemendum þá er allt hægt.

Hér má fræðast meira um The Daily Mile:

https://thedailymile.co.uk/

 


Skarðshlíðarskóli | Hádegisskarð 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 527-7300 | Netfang: skardshlidarskoli@skardshlidarskoli.is