Foreldrabréf í upphafi árs

Kæru foreldrar og forráðamenn

Þá eru fyrstu dagarnir liðnir og allt hefur gengið vel þó skólabyrjun hafi verið heldur óvenjuleg þar sem nemendur mættu einir á skólasetningu. Nemendur í 1. bekk fengu þó að mæta með foreldri með sér þar sem þeir eru að stíga sín fyrstu skref á skólagöngunni. Í vetur verða um 270 nemendur við skólann í 1. til 9. bekk.

Í ljósi aðstæðna er nauðsynlegt að takamarka alla umferð fullorðinna um skólann og því eru forráðamenn vinsamlegast beðnir um að koma ekki inn í skólann nema brýna nauðsyn beri til. Það er mikilvægt að við hjálpumst að við að framfylgja þeim sóttvarnarreglum sem eru í gildi núna.

Skólinn hefur fengið allt húsnæði afhent og það gerbreytir allri aðstöðunni í skólanum. Íþróttakennslan mun fara fram í nýju og glæsilegu íþróttahúsi en sundkennsla verður áfram í Ásvallalaug. Miðdeildin er komin á sinn rétta stað í húsinu en þau fluttu niður á neðri hæð í byggingu E sem er við hliðina á íþróttahúsinu. Unglingadeildin er áfram á sínum stað og yngri deildin fékk fleiri kennslustofur á neðri hæðinni í byggingu D. Annar og fjórði bekkur ganga inn á sama stað og í fyrra en fyrsti og þriðji bekkur eru í nýju álmunni og þeirra inngangur er við hliðina á inngangi miðdeildar. Skarðið, félagsmiðstöðin okkar er komin í endanlegt húsnæði og hefur sér inngang af brúnni fyrir ofan skólann.

Frístundaheimilið Skarðssel er staðsett á jarðhæð en hefur einnig aðstöðu á annarri hæðinni við hliðina af Skarðinu. Þar munu nemendur í 3. og 4. bekk vera í vetur. Við hlökkum til að geta boðið ykkur í heimsókn til að skoða glæsilega skólann okkar en þangað til verðum við að vera dugleg að setja inn myndir á heimasíðuna okkar.

Nemendum hefur fjölgað sem þýðir að við höfum þurft að bæta við starfsmönnum og eru þeir orðnir 57 talsins. Það hefur fjölgað í stjórnunarteymi skólans og Margrét Lilja Pálsdóttir hefur hafði störf hjá okkur en hún er deildarstjóri í 1. til 7.bekk. Á heimasíðu skólans má sjá lista yfir starfsmenn skólans.

Í Skarðshlíðarskóla væntum við árangurs af nemendum og starfsfólki. Það skiptir okkur máli að öllum líði vel og að þeir nái árangri í leik og starfi. Því er hjálplegt að forráðamenn hvetji barnið til þess að sýna samvinnu, vináttu og þrautseigju. Þá viljum við eiga gott samstarf við alla forráðamenn og hvetjum ykkur til að leita til okkar með spurningar, ábendingar eða hrós.

Hafragrautur er í boði fyrir nemendur í 1 til 7. bekk frá 7:50 til 8:10 hvern morgun og frá 8:30 til 8:50 fyrir nemendur í 8. og 9. bekk. Gaman er að sjá þann fjölda nemenda og starfsmanna sem fær sér hafragraut á hverjum morgni.

Minnum forráðamenn á að skráning nemenda í hádegismat og ávaxtastund fer fram í gegnum Skólamat. Þegar nemendur hafa verið skráðir í mat fá þeir númer sem þeir verða að slá inn í tölvuna á hverjum degi áður en þeir borða. Við höfum gefið nemendum tækifæri á að borða þó svo að þau hafi ekki verið með tölurnar en frá og með morgundeginum, 3. september, þá verða allir sem ekki eru skráðir í mat að koma með nesti. Ef nemendur muna ekki töluna sína þá er upplagt að skrifa þær á miða fyrir þau eða á hendurnar á þeim.

Það er okkur mikilvægt að upplýsingar um forráðamenn séu réttar í Mentor . Því vil biðjum við alla um að líta inn á Mentor og kanna hvort allt upplýsingar séu réttar, heimilisföng, netföng, símanúmer og þess háttar.

Búið er að endurskoða ástundunarreglur sem gilda í Hafnarfirði. Þar er nákvæmlega útlistað hvernig fylgst er með ástundun nemenda í grunnskólum Hafnarfjarðar, en reglur eru samræmdar í öllum skólum bæjarins. Búið er að senda þær heim í tölvupósti en það er alltaf hægt að nálgast þær hér.

Leyfi og veikindi þarf að tilkynna í gengum Mentor. Forráðmenn geta skráð leyfi/veikindi í stökum tímum eða í heilum dögum, mest tvo daga í senn. Ef forráðamenn komast ekki á netið þá er hægt að hringja í skólann í síma 527 7300, en ekki er tekið við miðum sem nemendur koma með að heiman.

Það er ánægjulegt hve margir koma á reiðhjóli, hlaupahjóli og rafmagnshlaupahjól í skólann. Öll þessi farartæki þarf að geyma úti í hjólagrind og notkun þeirra er ekki leyfð á skólalóðinni frá 8:00 – 17:00 eða á meðan starfsemi er í skólanum. Við hvetjum alla til að vera með hjálm.

Að gefnu tilefni bendum við á að ný umferðarlög nr. 77/2019 tóku gildi þann 1. janúar 2020. Hér má finna atriði er varða umferðaröryggi, allra nemenda, sem mikilvægt er að fara yfir í upphafi skólaárs http://www.umferd.is/um-okkur/tilkynningar/skolabyrjun. Við biðjum ykkur að kynna ykkur þetta vel og vandlega. Á Umferðarvefnum má einnig finna margskonar fróðleik.

Við hlökkum til samstarfsins í vetur. Vinnum saman að vellíðan og námi barnanna í Skarðshlíðarskóla.

Kærar kveðjur

Stjórnendur og starfsfólk Skarðshlíðarskóla


Skarðshlíðarskóli | Hádegisskarð 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 527-7300 | Netfang: skardshlidarskoli@skardshlidarskoli.is