Dagur 2

Þá er degi tvö lokið og eins og í gær gekk dagurinn vel. Þetta er skrýtið ástand en allir eru að leggjast á eitt í að láta hlutina ganga upp. Í dag fór fram fjölbreytt kennsla í skólanum og fengum við m.a.fregnir af því að nemendur í 4. bekk hefðu brotið upp daginn með zumba!

Nemendur í 5. – 8. bekk eru allir með ipad og eru vanir að vinna verkefni rafrænt og kemur það sér vel núna. Þeir eru duglegir að senda fyrirspurnir á kennara sína og fá svör við því sem þeir ekki skilja. Þetta er frábært tækifæri til að efla sjálfstæð vinnubrögð og að nemendur taki ábyrgð á eigin námi en að sjálfsögðu með stuðningi skóla og heimilis.

Nemendur í 1. – 4. bekk hafa ekki sama aðgengi að kennurum sínum utan skólatíma en ef þið hafið einhverjar spurningar varðandi nám barnanna ykkar ekki hika við að senda tölvupóst á kennara og þeir leiðbeina ykkur eftir bestu getu. Ef þið eru heima með börnin ykkar þá getur verið gott að setja upp dagsplan. Við fengum leyfi til birta mynd að einu slíku skipulagi sem nemandi og foreldri gerðu í sameiningu.

Starfsmenn skólans hafa verið duglegir að nýta sér tæknina til að hafa samskipti og í dag héldum við okkar fyrsta starfsmannafund með fjarfundabúnaði. Þetta var einskonar „prufu“ fundur og var gaman að „hittast“ og stefnum við á að hafa svona fundi daglega.

En eins og þið vitið þá er búið að skipta skólanum niður í nokkur hólf og starfsmenn mega ekki hittast sem eru ekki í sama hólfi. Starfsmenn sem eru í sama hólfi, verða að hafa a.m.k. tvo metra á milli sín. Skrifstofan er svo eitt hólf og þessa vikuna mætir Inga skólastjóri þangað en Rannveig aðstoðarskólastjóri vinnur heima. Í næstu viku verður Inga heima og Rannveig í skólanum. Elísabet ritari, Berglind deildarstjóri upplýsingatækni og Ægir húsumsjónarmaður eru einnig í skrifstofuhólfinu.

Já, það eru margir fletir á þessu samkomubanni en við erum þakklát fyrir því að geta haldið út skólastarfi með þessu frábæra skólasamfélagi sem Skarðshlíðarskóli hefur að geyma.


Skarðshlíðarskóli | Hádegisskarð 1, 221 Hafnarfjörður
Sími: 527-7300 | Netfang: skardshlidarskoli@skardshlidarskoli.is